Ferill
Sella Páls leikskáld og rithöfundur er fædd og uppalin í Reykjavík, en fluttist ung til Bandaríkjanna. Þar bjó hún víðsvegar en lengst í New York. Hún stofnaði og átti veitingastaðinn Palsson's í New York á annan áratug og var framleiðandi söngleiksins Forbidden Broadway í New York, Boston, Washington og Los Angeles. Einnig stofnaði hún og rak SeniorShops.com, sem var vinsæl netverslun um áraskeið. Með Agli Ólafssyni samdi Sella söngleikinn Come Dance with Me sem var sviðsettur í New York borg. Leikrit hennar Ljósir lokkar, var leiklesið í Þjóðleikhúsinu. Sella var meðlimur leikskáldahópsins Salt Lake Acting Company og skrifaði þá nokkur stuttleikrit, sem voru sviðsett hjá leikfélaginu. Sella hefur samið nokkur kvikmyndahandrit og gert heimildarmynd um Sigurð Þorsteinsson skipstjóra, sem sýnd var í ríkissjónvarpinu. Hún flutti til Íslands árið 2011 eftir ævintýralegt líf erlendis. Árið 2012 gaf Sella út bókina Pitching Diamonds á ensku. Einnig hefur hún samið Tangled in Madrid, sem er framhaldssaga af Pitching Diamonds. Leikfélagið Snúður og Snælda settu upp leikrit hennar Ráðabruggið í Iðnó og víðar. Árið 2014 samdi hún leikritið Erfðagóssið sem meðlimir leikfélagsins Leikhúslistakonur 50+ lásu í Iðnó og árið 2015 var leikrit hennar Fyrirgefningin leiklesið þar af sama leikfélagi. Leikrit hennar Allt í Plús var lesið í Tjarnarbíó 25. okt. 2017. Skáldsagan Girndarráð kom út á íslensku 25. okt. 2016, en Storytel gaf hana út sem hljóðbók haustið 2022. Sella enskaði bókina og var Elf Rock gefin út 30. ágúst 2023. Sella var ein af stofnendum leikfélagsins Leikhúslistakonur 50+ og sat í stjórn þess fyrsta árið. Leikrit hennar Kvennaráð var lesið í Hannesarholti þ. 22. og 25. febrúar 2018, en Sveinn Einarsson stjórnaði. Einnig var Sella stofnandi Leiklestrafélagsins, og stóð það félag fyrir leiklestri á leikriti Sellu, Heimsókn í Herdísarvík í Þjóðleikhúskjallaranum 28. jan. 2020. Sella o.fl. stofnuðu nýlega Leikfélag Eyrarbakka og var hún fyrsti formaður þess. Í mars 2024 setti leikfélagið upp sýninguna Einu sinni á Eyrarbakka og samdi hún myndbandið Ljúfa Lilja og leikþáttinn Bíltúrinn fyrir þá sýningu. Uppselt var á allar 6 leiksýningarnar.